Vikuferð um
Vesturland og Vestfirði

(leiðarkort)

Dagur 1:

Við leggjum af stað snemma úr Reykjavík í þessa ferð , og ökum sem leið liggur fyrir Hvalfjörð og um Leirársveit og fyrir Hafnarfjall uns komið er í Borgarnes um kl 10. Eftir stuttan stans er síðan haldið áfram vestur Mýrarnar og dáðst að Eldborginni og síðan um hraunbreiður sunnanundir Snæfellsnesfjallgarðinum, að hinu fallega stuðlabergi á Gerðubergi og að Vegamótum þar sem áhugaverðir minjagripir og fallegir steinar úr nálægum fjörum og giljum eru stundum á boðstólnum.
Fuglalífið á tjörnum og lækjum í nágrenni við Ölduhrygg, eins og til dæmis á Hofgarðatjörn, er margrómað,og síðan má bregða sér heim að bæjunum Ölkeldu eða Lýsuhóli og gæða sér á þeirra öndvegisvatni. Bjarnafoss, Búðahraun og kirkjan og hin margrómaða skeljasandsfjara sem finna má við Búðir, eins og víðar á sunnanverðu Snæfellsnesi eru ótæmandi fyrirmyndir góðra ljósmyndara.
Annar slíkur staður er Arnarstapi, þar sem Stapafell með Snæfellsjökul í baksýn draga ósjálfrátt að sér athygli ferðamannsins, en þegar þangað er komið leggjum við í gönguferð meðfram sjávarsíðunni og dáumst að fuglalífinu og hinni afar furðulega vogskornu strönd., jafnvel allaleið yfir að Hellnum.
Kvöldverður og gisting á Arnarstapa eða Hellnum

Dagur 2:

Við tökum daginn snemma næsta morgun og gefum okkur tíma til þess að skoða Malarrif, og síðan verða hellarnir við Purkhóla og Djúpalónssandur næst á vegi okkar, en á þeim síðastnefnda göngum við til sjávar og hugum að aflraunasteinum og flakinu af breska togaranum Epine sem þarna fórst árið 1948.
Á Gufuskálum getur að líta hæsta mannvirki Íslands,áður lóranstöð Atlantshafsbandalagsins en nú langbylgjumastur Ríkisútvarpsins, og við Hellissand er tilvalið að skyggnast aftur í aldir með því að ganga upp að hinum fornu fiskbyrgjum í hraunjaðrinum og skoða síðan minjasafnið um útgerðarhætti þeirra Snæfellinga á eftir.
Í Ólafsvík er tilvalið huga að veitingum og þjónustu, enda eini staðurinn á Útnesinu þar sem slíka þjónustu er að fá allan ársins hring.
Frá Ólafsvík höldum við aftur í austurátt, um Fróðársveit og brátt birtist okkur hinn mikilúðlegi Búlandshöfði en þar finnast, eins og margir vita merkilegir plöntusteingervingar í jarðlögum sem liggja í u.þ.b. 150 m. hæð yfir sjávarmáli. Vegurinn um höfðann liggur hátt og þegar hæsta punkti er náð þá opnast stórfenglegt útsýni yfir norðurstrandlengju Snæfellsness í austurátt.
Brátt er komið í Grundarfjörð þar sem bæði getur að líta einkar fagurt útsýni til fjalla og í átt til hafs þar sem hið formfagra Kirkjufell (463m) ber við himinn.
Stuttu síðar komum við í Stykkishólm, þar sem að sumri til gefst tækifæri til þess að komast í siglingu út á milli eyjanna á Breiðafirði, eða í sjóstangaveiði, en annars verðum við að láta okkur nægja að dást að og heimsækja einhver hinna mjög svo fallegu gömlu hús í Hólminum sem hafa verið gerð upp og færð í upprunalegt horf af einstakri kostgæfni. Einnig er vel þess virði að heimsækja skógræktarátak heimamanna í útjaðri bæjarins en þar hefur verið lyft Grettistaki.
Við höldum síðan inn Skógarströnd og yfir í Dalasýslu þar sem ætlunin er að gista á Hótel Laugum í Sælingsdalur, en þar er jarðhiti og stendur ágætis sundlaug gestum til boða.

Dagur 3:

Dalirnir (sem heilla eins og við vitum) eru fyrst og fremst þekktir fyrir sögustaði sína úr Íslendingasögum, fyrst og fremst Laxdælu, en hér eru Krosshólaborg Auðar djúpúðgu og Hvammur í Dölum í næsta nágrenni.Síðan eru sögustaðir Eiríks Sögu Rauða í Haukadal, þar sem bær hans, Eiríksstaðir, hefur nú verið endurgerður, og munum við heimsækja staðinn og rifja upp sögu þeirra feðga, Eiríks og Leifs hins heppna sonar hans í leiðinni. Næst liggur leið okkar um hina afar fallegu Fellsströnd, fyrir Klofning þaðan sem eyjafjöld Breiðafjarðar blasir einkar vel við.
Höfuðbólið Skarð á Skarðsströnd, er einhver sögufrægasti staður landsins, og við rifjum upp feril Björns hirðsstjóra og Ólafar ríku, um leið og við göngum um hina afar fallegu kirkju staðarins og þá merkisgripi sem hana prýða. Hinir víðáttumiklu akrar í Saurbænum gleðja alltaf augað, sem og fjörur Gilsfjarðar þar sem mikla vaðfuglafjöld gefur oft að líta. Handan fjarðarins erum við svo komin á sjálfa Vestfirðina, aðra sýslu og annað sveitarfélag þar sem er sjálf Reykhólasveitin er með allar sínar náttúruperlur:Vaðalfjöll, Barmahlíð þjóðskáldsins, Borgarlandið auk margra sögustaða Íslendingasagna. Við Þorskafjörð má oft sjá konung íslenskra fugla renna sér langar skriður eftir firðinum án þess svo mikið sem að blaka vængjum, en þegar hér er komið sögu, þá fer sveitabæjum í byggð ört fækkandi, unz eyðifirðir og eyðibýli Austur-Barðastrandarsýslu taka við ferðalanginum hver af öðrum. Ekki hefur náttúrufegurðin þó beðið neinn sérstakan skaða af grisjun byggðarinnar, þvert á móti virðist skógarkjarr og annar gróður sækja þeim mun meir í sig veðrið eftir því sem fleiri ár líða endalokum hennar.
Brátt líður þó að því, að byggðir Vatnsfjarðar koma í ljós, og lokaverk dagsins verður að skoða helstu náttúrperlu Barðastrandarinnar, þ.e.a.s. Vatnsdalsvatn og nágrenni þess, þar sem grósku trjágróðurs, plöntu,- fugla,- og skordýralífi virðast lítil takmörk sett.
Kvöldverður og gisting að Hótel Flókalundi eða í einni af hinum góðu bændagistingum sem bjóðast í grenndinni.

Dagur 4:

Við hefum daginn á heilsubótargöngu upp í Surtarbrandsgil, fyrir ofan Brjánlæk, þar plöntusteingervingar gefa til kynna að á tertíer-tímabilinu hefur loftslag á þessum slóðum verið mjög áþekkt því sem nú þekkist í laufskógabelti Bandaríkjanna, eða Mið-og Suður Evrópu. Síðan er ekið í vesturátt um blómlegar sveitir Barðastrandar, uz hækka fer undir fæti og hálendi Kleifaheiðar tekur við. Útsýni ofan af heiðinni vestur til Patreksfjarðar er einkar eftirminnilegt, en áður en þangað er haldið er ætlunin að halda út fjörðinn að sunnanverðu, um Örlygshöfn, með viðkomu á Byggðasafninu sem þar er, allt til Breiðuvíkur og Látrabjargs, þar sem landslag og umhverfi allt er hvað stórfenglegast á öllu Íslandi. Hið ógnarháa fuglabjarg, gífurleg fuglamergðin og hin ótalmörgu minnismerki um mikla búsetu sem nú er öll horfin, lætur engan mann ósnortinn.
Rauðisandur, sem er einhver fegursti staður Íslands, en jafnframt sá sem fæstir hafa heimsótt, munum við alls ekki láta fram hjá okkur fara, fyrst við erum á annað borð stödd í nágrenninu.
Við höldum síðan um kauptúnið Patreksfjörð, þar sem íbúafjöldi og umsvif í útgerð hafa mikið dregist saman á síðari árum, og höldum til Tálknafjarðar eða Bíldudals, þar sem ætlunin er að eiga náttstað.

Dagur 5.

Næsta dag er ætlunin að taka daginn snemma og halda sem leið liggur um Ketildalaveg allt vestur til Selárdals. Hér, sem svo víða annarsstaðar á Vestfjörðum eru merki um gífurlega byggð frá fyrri öldum, sem nú er öll komin í eyði. Jafnvel sjálfur Selárdalurinn, sem hvert stórmennið á fætur öðru sat í velmegtugheitum öld fram af öld, varð endanlega að lúta sömu örlögum og aðrar miður búsældarlegar jarðir á þessum slóðum. En hér minnumst við öðrum fremur á þá kynlegu kvisti Gísla á Uppsölum, sem Stikluþættir Ómars Ragnarssonar gerðu ódauðlegan, og listamanninn með barnshjartað, Samúel Jónsson, sem einn og óstuddur lagði í það stórvirki að byggja hér sína draumaborg.
Við minnumst hetjulegrar varnar og falls Gísla Súrssonar sem við horfum niður í Geirþjófsfjörð ofan af Dynjandis-heiðinni, en þvínæst verður Arnarfjörður, með sín háu fjöll og tignarlegu umgjörð, næstur á vegi okkar eftir að komið er niður af heiðinni. Þar gefur að líta sjálfa aðalperlu Vestfjarða, fossinn Dynjandi, þar sem hann steypist stall af stalli, og myndar afar glæsilega slæðu á leið sinni niður á jafnsléttu.
Á Hrafnseyri rifum við upp lækningafræði Hrafns Sveinbjarnarsonar og grimmileg örlög hans, sem og uppruna frelsishetju okkar Íslendinga á 19 öld, Jóns Sigurðssonar, en staðurinn hefur nú fengið afar þarfa og glæsilega andlitslyftingu eftir margra áratuga vanrækslu.
Hinar miklu endurbætur á vegakerfi Vestfirðinga sem orðið hafa nú á allra síðustu árum fara nú að gera vart við sig, eftir að komið er í Dýrafjörð, og þvínæst Önundarfjörð, þar sem mönnum veitist erfitt að halda aftur af fararskjótanum á greiðfærum, en jafnframt fáförnum glæsibrautunum, og alræmdir farartálmar fyrri tíma á borð við Breiðadalsheiðina, eru nú leikur einn, þar sem jarðgöngin eru og fyrr en varði rennum við í hlað á Ísafirði, þar sem okkar býður kvöldverður og náttstaður.

Dagur 6.

Við hefjum daginn með því að því að heimsækja Neðstakaupstað á Ísafirði, Sjóminjasafnið í Turnhúsinu og önnur þau merku gömlu hús sem þar hafa verið friðlýst á undanförnum árum. Síðan liggur leið okkar út úr bænum, undir hinni hrikalegu Eyrarhlíð, í átt til Bolungarvíkur, þar sem ætlunin er að skoða hina merkilegu gömlu verbúð í Ósvör sem heimamenn hafa endureist af miklum myndarskap, en þar geta menn virt fyrir sér áhöld, tól og útbúnað hinnar gömlu árabátaútgerðar frá Vestfjörðum, og reynt að gera sér í hugarlund hver lífskjör fólks voru á þeim tíma.
Þegar haldið er í austurátt frá Ísafirði inn Djúpið, þá verður fyrst á vegi manns Súðavíkurkauptún, þar sem óhjákvæmilegt er að hinir hörmulegu atburðir í janúar 1995 komi upp í hugann, en afleyðingar hans getur enn að líta á svæðinu. En eftir að Álftafirði sleppir, verður byggðin ört strjálbýlli uns eyðifirðirnir taka við hver af öðrum, auk þess sem eyðibyggðin á Snæfjallaströnd handan Djúps blasir við mestalla leiðina. Þó halda hin fornu höfuðból á annesjum, eins og t.d. Ögur, Vatnsfjörður, auk nokkurra stórbýla enn velli hér á þessum merku slóðum, svo og búskapsins á eyjunum á Ísafjarðardjúpi, Æðey og Vigur. Jarðhitinn og sundlaugin í Reykjanesi draga ferðalanginn að sér og við setjum okkur ekki úr færi að nýta aðstöðuna. Í fjöruborðinu og á skerjum má síðan oft sjá seli spóka sig í makindum.
En brátt erum við komin í botn Djúpsins og höldum á Steingrímsfjarðarheiði, sem nú er orðinn beinn og greiðfær þjóðvegur. Kvöldverður og gisting á Hólmavík, Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði, eða sveitagistingu í nágrenninu.

Dagur 7.

Á þessum síðasta degi ferðarinnar, hefjum við daginn með því að aka hringleiðina um Drangsnes, þar sem ákaflega fallegt útsýni gefst til Grímseyjar, yfir Steingrímsfjörð og afar fallega fjallasýn.Ýmsa afþreyingu, svo sem hestaferðir o.fl er að fá hér á svæðinu, en síðan er haldið suður á bóginn. Við hugum kannski að steingervingum við Húsavíkurkleif, en höldum svo suður Hólmavíkurveg, um Kollafjörð, Bitru, skoðum hinn gamalgróna verslunarstað Borðeyri, og rifjum þar upp sögu Thors Jenssen og afkomenda hans. og þiggjum svo veitingar að Brú í Hrútafirði. Suður Holtavörðuheiði, um Norðurárdal, þar sem við lítum á og klífum jafnvel Grábrókargíga, og Höldum svo Suður, um Hvalfjarðargöng allt til Reykjavíkur. Stutt skoðunarferð um höfuðstaðinn, áður en farþegum er skilað heim á sína gististaði.

Lengd: 7 dagar, 7 nætur.
Lágmarksfjöldi farþega: 2 manns, hámark:8. (Undantekning: Sérhópar*)
Brottfarir: Annan hvern mánudag eða samkvæmt pöntun,allt árið.
Vetrarverð að
(til 30 Apríl, Sept-Des):
Sumar
Verð
(Maí-Ágúst):
Staðfestingargjald: 30%.
Álag vegna eins manns herbergis: +18%.
Þóknun til söluaðila: leitið tilboða.
Brottfarir: sjá Brottfarir hér til vinstri

Söluskilmálar (vinsamlegast lesið vandlega)
Nauðsynlegur búnaður: Góðir gönguskór og hlífðarfatnaður.Sundfatnaður og handklæði

Innifalin þjónusta: Akstur og leiðsögn. Öll söfn, sundstaðir, o.þ.h. sem heimsótt er í ferðinni.
Hótel eða góð bændagisting í tveggja manna herb.yfirleitt með baði, fullt fæði (vel útilátinn morgunverður, snöggsoðinn hádegisverður með "rétti dagsins" eða sambærilegu,skrínukostur ef nauðsynlegt reynist, 3 rétta kvöldverður), frá hádegisverði fyrsta dags, til hádegisverðar síðasta dag ferðarinnar.Drykkir/minibar ekki inninfalin.

ATH: Að vetri til (og jafnvel á öðrum árstímum líka), þá getur veður og ófærð eða aðrar óviðráðanlegar orsakir hamlað för tímabundið. Valferðir ehf taka ekki ábyrgð á kostnaði eða óþægindum sem hlýst af slíkum töfum.

bakalabelheimlabelefstlabel