Hringferð um Ísland á 7 dögum.

(akstursleiðin)
Okkar vinsælasta ferð: Brottfarir vikulega til Septemberloka.

Dagur 1:

Við leggjum snemma af stað úr Reykjavík og ökum fyrir Hvalfjörð, yfir Dragháls í Skorradal , þaðan sem gefst gott útsýni til Skarðsheiðar og síðan Borgarfjarðarbraut allt þar til komið er að Deildartungu þar sem vatnsmesti hver landsins verður skoðaður. Síðan um Reykholt, þar sem héraðshöfinginn og sagnaritarinn Snorri Sturluson ól manninn og þvínæst að Hraunfossum og Barnafossi, sem reyndar er kallaður Bjarnafoss í Heiðarvígasögu. Þvínæst niður Hvítársíðu, framhjá Varmalandi og upp Norðurárdal, þar sem við getum fengið okkur hressingu í Hreðavatnsskála og gengið á Grábrók, þaðan sem gott útsýni gefst yfir dalinn og hið 3000 ára gamla hraun sem rann úr gígunum.
Þegar komið er norður yfir Holtavörðuheiði, liggur beinast við að halda í hádegisverð að Staðarskála en síðan er haldið rakleiðis að Byggðasafninu á Reykjum í Hrútafirði sem er einkar áhugavert vegna sérstæðra minja sem þar er að finna um hákarlaútgerð á Húnaflóa forðum daga. Þegar komið er í Víðidal, er tilvalið að renna að Kolugljúfri, jafnframt því sem við rifjum upp ættartölur Englandskonunga við Auðunnarstaði. Í Vatnsdal ökum við um hólana að Flóðinu sem oft er hér rennislétt þannig að Vatnsdalsfjall speglast fagurlega í því.
Á Blönduósi má huga að hressingu, en síðan er haldið yfir Vatnsskarð og að hinni gamla torfbæ Glaumbæ og rifjum upp sögu staðarins og ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttur áður en haldið er í náttstað á Sauðárkróki eða góðri bændagistingu í Skagafirði. Kvöldverður og gisting á Sauðárkróki eða í góðri bændagistingu í nágrenninu.

Dagar 2 og 3.

Handan Héraðsvatna rifjast upp ógnir Sturlungaaldar þegar ekið er framhjá vígvöllunum á Flugumýri, Haugsnesi og Örlygsstöðum, en síðan er lagt á Öxnadalsheiði og þá fer að styttast leiðin til Akureyrar. Þegar þangað er komið, hefjumst handa með lítilli skoðunarferð um Akureyri, lítum á Grasagarðinn, göngugötuna, og mannlífið við höfnina, jafnvel söfn, áður en haldið er í austurátt út úr bænum, gamla veginn yfir Vaðlaheiði ef hann er fær,annars um Víkurskarð og skoðum höfuðprýði Fnjóskadals, Vaglaskóg og hina nýuppgerðu fögru brú yfir ána. Kristnitakan árið 1000 og hátíðahöldin í tilefni afmælisins árið 2000 rifjast óhjákvæmilega upp þegar bæ Þorgeirs Ljósvetningagoða hyllir upp handan Ljósavatns og sú staðfesting á sinni nýju trú sem hann framdi við Goðafoss.
VMývatn er af of mörgu að taka til þess að hægt sé að gera svæðinu viðhlýtandi skil á einum degi og þess vegna er ætlunin að dvelja hér tvær nætur. En meðal þeirra fyrirbæra sem við munum helst gefa gætur á svæðinu ber að nefna fjölskrúðugt fuglalífið, Skútustaðagígi og Dimmuborgir, Grjótagjá og Stórugjá (með sinni góðu baðaðstöðu), leirhverina og gufuaugun í Námaskarði, en seinni daginn munum við skjótast upp í Kröflu og huga að framkvæmdum þar og sprengigígnum Víti. Seinni hluta dagsins má svo verja til gönguferðar umhverfis barm Hverfjalls eða annarra gönguferða þar í nágrenninu.
Kvöldverður og gisting á Sel-Hótel Mývatni eða sambærilegum góðum gististað í nágrenninu.

Dagur 4.

Mývatnsöræfi verða fyrst á vegi okkar næsta dag, og ef Hólsfjallavegurinn er opinn, þá munum við halda að Dettifossi, og dást að hinu feiknamikla afli hans og hinu stórfenglega gljúfri sem er bústaður hans. Þvínæst liggja nú fyrir okkur Möðrudalsöræfin , þar sem fjalladrottningin Herðubreið blasir gjarnan við langt í suðri, Möðrudalur á Fjöllum með sína sérstæðu kirkju, og góða Fjallakaffi, en síðan Jökuldalsheiðin, þar sem fólk dró fram lífið við afar kröpp kjör langt fram á þessa öld. Við höldum síðan niður Jökuldalinn þar sem Jökla byltist kolmórauð og gruggug í þröngum farvegi sínum og nú fer brátt að styttast leiðin til höfuðstaðar Austurlands, Egilsstaða .
Við munum litast um á Egilsstöðum, og reyna að heimsækja hið merka Minjasafn staðarins sem nú hefur að geyma nokkra þá helstu gripi sem fundist hafa við vel heppnaða fornleifauppgreftri á þessu landshorni að undanförnu, en eftir hádegið höldum við síðan áleiðis suður Fagradal niður á Reyðarfjörð, þar sem renna má við og skoða hið einkar áhugaverða Stríðsminjasafn, sem komið hefur verið upp þar á staðnum.
V
ið höldum fyrir Vattarnes, þaðan sem Skrúðurinn blasir við, og inn á Fáskrúðsfjörð þar sem ýmsar minjar um sjósókn Fransmanna hér við land, eins og t.d. hinn eftirminnilega sjómannagrafreit þeirra, getur að líta. Á Stöðvarfirði heimsækjum við að sjálfsögðu Steinasafn Petru. og höldum þaðan á Breiðdalsvík er gott að gera næturstans og fá sér kvöldverð og gistingu á Hótel Bláfelli, eða öðrum góðum gististað.

Dagur 5.

Í bítið næsta dag höldum við fyrir Berufjarðarbotn þar sem stundum má líta hreindýrahjarðir og á Djúpavogi er hin nýuppgerða Langabúð staðarprýði, sem og önnur falleg timburhús, en plássið er eins og kunnugt er einhver elsti verslunarstaður landsins.
Hamarsfjörður og Álftafjörður verða næst á vegi okkar,en sá síðarnefndi ber oft nafn með rentu þegar feiknamikil álftastóð safnast þar saman. Brátt er komið að Hvalnesi í Lóni sem stendur undir hinu mikilúðlega Eystra-Horni,en það fjall er að mestu myndað úr djúpbergstegundunum gabbrói og granófýr. Af veginum um Hvalnesskriður, þótt hættulegur sé, þá verður að viðurkennast að þaðan er oft einkar stórfenglegt útsýni yfir ströndina, og þunga úthafsölduna sem brýtur á henni.
Af Almannaskarði er talið vera eitthvert fegursta útsýni á Íslandi, en þegar komið er niður úr skarðinu, þá bregðum við okkur út á Stokksnes þar sem m.a. getur að líta mjög líflegt kríuvarp á sumrin en annars selalátur að öllu jöfnu.
Það sem einkum dregur að sér athygli manna á Höfn í Hornafirði, sem nýverið hélt upp á hundrað ára verslunarafmæli sitt, er mjög öflugt atvinnulíf, einkum sjósókn og fiskvinnsla, en þar er einnig áhugavert minjasafn,auk þess sem staðurinn og reyndar svæðið allt er þekkt fyrir þann mikla fjölda flækingsfugla af erlendum uppruna sem þar sjást á ári hverju.
Eftir hádegisverð á Höfn, höldum annaðhvort upp Skálafellsheiði í Jöklasel, ef sú leið er fær, og þaðan í vélsleðaferð (ekki innifalið) en annars beint af stað vestur á bóginn, um Suðursveit, með sína óviðjafnanlegu fjalla og jöklasýn, í átt að Jökulsárlóni, með sjálfan Öræfajökul á framundan og vonumst eftir því að gott útsýni gefist á leiðinni til sjálfs Hvannadalshnúks (2119 m), svo og til allra hinna fjölmörgu skriðjökla falla fram af bergstálinu og breiða úr sér á láglendinu.
Bátsferðum um Jökulsárlón er aðeins haldið uppi að vor og sumarlagi, en sé ferð okkar farin á öðrum árstímum, þá má allt eins byrja á því að dást að virðulegri siglingu stórjakanna á lóninu af ströndinni, og leggja svo í góða gönguferð niður með stystu jökulsá landsins allt til sjávar og kíkja á leiðinni eftir sel, sem oft heldur til í útfallinu þar sem hann situr fyrir fiski sem gjarnan leitar upp í ósinn.
Annar möguleiki á ævintýraferð þennan morgun er að leggja upp í Ingólfshöfðaleiðangur með feðgunum á Hofsnesi, en sú ferð er einkar áhugaverð snemmsumars þegar fuglalífið í höfðanum, einkum lundavarpið, stendur í sem mestum blóma.
Þegar komið er í Skaftafell síðdegis er lagt upp í gönguferð um þjóðgarðinn, t.d. að rótum Skaftafellsjökuls, eða upp heiðina að Svartafossi og Sjónarskeri,þaðan sem óviðjafnanlegt útsýni yfir víðáttur Skeiðarársands og fjallahringinn í kring getur að líta.
Að gönguferðinni lokinni nýtum við okkur aðstöðuna í Þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli, en hún er aðeins starfrækt hluta úr árinu en sé hún lokuð þá er ekki um annað að ræða en leita til næsta þjónustustaðar í nágrenninu, nefnilega Kirkjubæjarklausturs, þar sem öll þjónusta er fáanleg allt árið um kring. Á leiðinni getum við bæði skoðað bænahúsið á Núpsstað og Dverghamra við Foss á Síðu og að sjálfsögðu sjálft "kirkjugólfið" á klaustri.
Nýtt fræðasetur hóf nýlega starfsemi sína á Klaustri,sem tilvalið er að nýta sér þegar rifjuð er upp hin stórbrotna saga eldsumbrota á svæðinu, eða kristni sagan og Eldklerksins. Kvöldverður og náttstaður á Klaustri eða næsta nágrenni.

Dagur 6:

Næsta morgun liggur leið okkar fyrst yfir hraunflákann Eldhraun, allt þar til komið er að afleggjarnum þaðan sem leið liggur upp í Skaftártungur. En hér standa okkur oftast nær tvær leiðir til boða:

L
eið 6. A: (Þegar Fjallabaksleið nyrðri er opin, sem er yfirleitt frá því seint í maí, yfir sumarið og vel fram á haustið):
Við höldum hér fyrst í stað upp þjóðveginn um Skaftártungur, og nánast alla leiðina getur enn að líta hinn mikla hraunfláka á hægri hönd, þannig að menn geta hér gert sér auðveldlega í hugarlund hveru óskaplegar náttúruhamfarir um var að ræða á sínum tíma. En brátt leggjum við þjóðveginn og efsta bæ í Skaftártungunum að baki, og síðan tekur við fjallvegurinn og torleiðið um fjallabak, því brátt er komið fyrstu óbrúuðu ánni af mörgum sem verða á vegi okkar í dag.
Við gerum stuttan stans við Hólaskjól til þess að aðgæta hvort rebbi hefur komið sér upp greni þar, eins og mörg undanfarin ár, en síðan er næsti áfangastaður hin stórfenglega Eldgjá, sem samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun vera lengsta gossprunga sem til er á yfirborði jarðar. Eftir því sem norðar dregur, verður landslagið sem á vegi okkar verður sífellt stórfenglegra og litríkara, og þegar komið er í sjálft Friðlandið að Fjallabaki skömmu fyrir hádegi, tekur litadýrð líparítfjallanna völdin. Í miðju friðlandsins er svo komið í fjallavinina Landmannalaugar, þar sem við munum nýta hina frábæru möguleika til gönguferða, til þess að taka góðar ljósmyndir, og svo síðast en ekki sýst, til þess að fara í heitt bað á eftir því öllu saman.
Eftir að hafa snætt skrínukost í hádeginu, þá höldum við fyrst sem leið liggur að Frostastaðavatni og Ljótapolli, en höldum síðan í vesturátt áleiðis inn á Dómadalsleið, sem er sínu greiðfærari en Fjallabaksleiðin, en getur þó átt það til að verða hið mesta torleiði líka. Þegar komið er vestur yfir Helliskvíslarnar, þá fer að bera æ meira á allskyns ummerkjum um eldvirkni: gígar, hraunflákar, á báða bóga og loks miklar vikurbreiður, jafnt af ljósum sem dökkum vikri, en allt ber þetta vitni um að við séum að nálgast sjálfa höfuðeldstöð landsins, Heklu, og brátt líður að því að hún komi í ljós, í öllum sínum mikilfengleik.
Að lokum höldum við svo suður á bóginn aftur, um Næfurholtsleið og Gunnarsholt, allt þar til komið er til Hellu, þar sem ætlunin er að gista þessa nóttina.

Leið 6. B: (farin á þeim árstímum þegar Fjallabaksleið er ófær).
Í
þessu tilviki, þá höldum við sem leið liggur yfir Kúðafljót og Mýrdalsssand, allt þar til komið er í Vík í Mýrdal býðst yfirleitt sá möguleiki, að halda í gönguferð út með Reynisfjalli, niður að sjó þar sem þung úthafsaldan brýtur sífellt á ströndinni og ógnar þorpinu. Einnig má halda niður í Reynishverfi þar sem fyritaks útsýni býðst vestur til Dyrhólaeyjar .
Á báðum þessum stöðum er fuglalífið um vor og sumar annálað, einkum hið öfluga lundavarp í Reynisfjalli og kríuvarpið í Dyrhólaey,auk þess sem selur sækir töluvert upp í Dyrhólaós. Í góðu veðri er einnig hægt að renna upp að Sólheimajökli og kanna hversu hratt hann skreppur saman þessi misserin.
Við skoðum síðan Skógafoss og rennum við á byggðasafninu á Skógum þar sem gott er að fræðast um búskaparhætti,mannlíf og sjósókn undir Eyjafjöllum á gamalli tíð.
Við skoðum þvínæst hinn formfagra Seljalandsfoss steypast fram af hárri klettabrún, en höldum síðan í átt að Fljótshlíðinni og dáumst að því við Stóra Dímon eins og Gunnar forðum hve hlíðin er fögur.
Á Hvolsvelli hefur nýlega verið opnuð sögusýning um Njáluslóðir, sem hægt er að skoða áður en lagt er á Rangárvallaveg þar sem fyrstur verður á vegi okkar gamli bærinn á Keldum, sem talinn er eitthvert elsta hús á Íslandi að stofni til. Blátærar bullandi vatnsuppsprettur nánast við bæjarvegginn eru líka sérstakt augnayndi. Kvöldverður, og náttstaður á Hellu eða næsta nágrenni.

Dagur 7.

Við höldum í vesturátt frá Hellu, og rennum brátt yfir lengstu á Íslands Þjórsá, og rennum niður að Urriðafossi til þess að dást að því mikla sjónarspili náttúrunnar,(sem er einkar stórfenglegt þegar áin er í miklum vexti), en til þess fer hver að verða síðastur því hann er, eins og kunnugt er, á "matseðli" virkjunarsinna, eins og margar aðrar svipaðar íslenskar náttúruperlur. Við gefum okkur einnig tíma til þess að huga að verksummmerkjum eftir hinn mjög svo snarpa Suðurlandsskjálfta sem átti upptök sín hér í næsta nágrenni, í júní, árið 2000.
Eftir alllangan akstur um Suðurlandsundirlendið, þá komum við loks í Skálholt, þar sem við munum fyrst litastum utandyra, og þá einkum á þann fornleifauppgröft sem þar hefur stðið yfir nokkur undanfarin ár, en þvínæst innandyra, þar sem fagrir litglerjaðir gluggar, glæsileg altaristafla og góður hljómburður vekja einkum eftirtekt, auk hinnar tignarlegu og hátíðlegu stemmningar sem andblær liðinna alda hefur skapað staðnum og þar ríkir alltaf. Við höldum síðan áleiðis upp Biskupstungurnar og Haukadal og snúum okkur fyrst að því að skoða Gullfoss, sem í öllum sínum fjölbreytileika lætur aldrei neinn ósnortinn, jafnvel ekki þá sem hafa skoðað hann margoft. Þvínæst að Geysi í Haukadal og skoðum þar hverasvæðið,og sjáum Strokk gjósa, en það er hans hlutskipti nú sem endranær að sjá um að hrífa ferðamenn, en Geysir sjálfur virðist aftur lagstur nánast í sama dvala og hann var í fyrir jarðskjálftana árið 2000.
Eftir hádegisverð á Geysi eða í Brattholti, þá höldum við aftur í suðurátt, þar sem næsti áfangastaður er Laugarvatn, þar sem að líta má á Vígðulaug, hveri á vatnsbakkanum, gróðurhús í fullum rekstri eða bregða sér í sund eða gufubað.
Við höldum síðan yfir Lyngdalsheiði,þar sem skoða má gamla mannabústaðinn í Laugarvatnshelli, hraunketilinn Tintron eða hellismunnana í Gjábakkahrauni en brátt erum við svo komin í sjálfan þjóðgarðinn á Þingvöllum, og höldum þar yfir Hrafnagjá og um Vatnsvík allt að Nikulásargjá þar sem við dáumst að fjársjóðnum og sindrandi, blátæru vatninu. Höldum síðan fótgangandi yfir að þingstaðnum og Lögbergi þar sem gerð verður grein fyrir sögu staðarins, og þvínæst upp sjálfa Almannagjá að hringsjánni þar sem einna best sést í heiminum til þeirra ummerkja sem hin mikla gliðnun á Norður-Atlantshafshryggnum hefur valdið á jarðskorpunni.
Ferðinni lýkur svo með því að ekið er viðkomulítið,um Mosfellsheiði, til baka allt til Reykjavíkur,og áætlaður komutími sídegis um kl. 17.00.

Lengd: 7 dagar, 6 nætur.
Lágmarksfjöldi farþega: 2 manns.
Brottfarir: Annan hvern mánudag eða samkvæmt pöntun, starfrækt allt árið

Vetrarverð: (Október->Apríl):
Sumarverð
(Maí-September):
Staðfestingargjald: 20% ; Álag vegna eins manns herbergis: +16%
*Álag vegna einkahóps: (Ferðin aðeins fyrir þig og þína vini: +10%)
Fyrirspurnir frá ferðaskrifstofum velkomnar: bókið og staðfestið.
Þóknun til söluaðila: leitið tilboða.
Brottfarir: Sjá Brottfarir hér til hliðar

Söluskilmálar (vinsamlegast lesið vandlega)
Nauðsynlegur búnaður: Góðir gönguskór og hlífðarfatnaður, takið einnig með sundskýlu.

Innifalin þjónusta: Akstur og leiðsögn.Öll söfn, sundstaðir, o.þ.h. sem heimsótt er í ferðinni.
Hótel eða góð bændagisting í tveggja manna herb.yfirleitt með baði, fullt fæði (vel útilátinn morgunverður, snöggsoðinn hádegisverður með "rétti dagsins" eða sambærilegu,skrínukostur ef nauðsynlegt reynist, 3 rétta kvöldverður), frá hádegisverði fyrsta dags, til hádegisverðar síðasta dag ferðarinnar.Drykkir/minibar ekki inninfalin.
ATH: Að vetri til (og jafnvel á öðrum árstímum líka), þá getur veður og ófærð eða aðrar óviðráðanlegar orsakir hamlað för tímabundið. Valferðir ehf taka ekki ábyrgð á kostnaði eða óþægindum sem hlýst af slíkum töfum.

bakalabelheimlabelefstlabel