Krísuvík,Grindavík og Bláa Lónið

Við hefjum þessa stuttferð með því að aka sem leið liggur út úr bænum suður Hafnafjarðarveg og sveigja þaðan suður á Álftanes þar sem ætlun okkar er að heimsækja forsetasetrið á Bessastöðum. Fyrir utan kirkju staðarins sem er all sérstæð, þá eru Bessastaðir einkum þekktir fyrir fjölbreytt fuglalíf, einkum á vorin,þegar margar áhugaverðar farfuglategundir hafa þar viðkomu.
Við skoðum síðan hið fjölbreytta athafnalíf við Hafnarfjarðarhöfn, þar sem ægir saman bátum og skipum af öllum stærðum og þjóðernum,allt frá íslenskum trillum uppí rússneska verksmiðjutogara. En auk þess er bærinn nú orðinn vel þekktur af nunnklaustri sínu og svo víkingahátiðinni sem þegar hefur verið haldin þar tvisvar.
Við læðumst suðurúr bænum, undir Reykjanesbrautina og yfir á Krísuvíkurafleggjarann við Kapelluhraun þar sem yfirgefnir skreiðarhjallar blasa við til allra átta, þögul vitni um betri afkomu áður fyrr í þeirri grein. Framundan liggja miklir hraunflákar, Sveifluháls og Vatnsskarð og brátt kemur hið dularfulla Kleifarvatn í ljós. Leiðin sem ekin er meðfram vatninu vestanverðu á sér enga hliðstæðu á Íslandi: kynjamyndanirnar sem vindurinn (og reyndar einhverjir óþekktir hagleiksmenn líka!) hafa skorið út í móbergið og sandsteininn á þessum slóðum breytast umsvifalaust í tröll og forynjur þegar degi tekur að halla.
Brátt komum við svo að Seltúni þar sem einhverjar fyrstu tilraunir manna til nýtingar á jarðorkunni getur að líta, og þar munum við bæði skoða hveravirknina sjálfa og svo leirpyttina sem smátt og smátt hafa verið að myndast að undanförnu fyrir neðan veg.
Við rennum þvínæst að hinum gamla sprengigíg Grænavatni og höldum síðan sem leið liggur í fótspor hinna fornu vermanna, framhjá gamla höfuðbólinu Krísuvík og áleiðis útyfir hið mikla Ögmundarhraun sem þarna rann fyrir um 650 árum. Við Festarfjall gerum við stuttan stans á hamrabrúninni til þess að gefa fólki kost á að virða fyrir sér innviði fjallsins og skyggnumst síðan til hafs þar sem oft getur að líta sel og stöku sinnum hrefnur á siglingu.
Í Grindavík skoðum við athafnalífið við höfnina, og stöldrum e.t.v. við í Sjómannastofunni til hressingar, en höldum þvínæst að Svartsengi, þar sem mannvirkin verða skoðuð og svo verður tækifærið að sjálfsögðu notað til þess að fá sér bað í Bláa Lóninu. Að því loknu ekið rakleiðis til Reykjavíkur.
Lengd: 4 klst,
Brottför
: Daglega kl. 8:30 og 13:30, samkvæmt pöntun.
Verð pr.mann (fyrir 4 farþ.eða fleiri):
Verð pr.mann
:
(Vinsamlegast eljið gjaldmiðil)

bakalabelheimlabelefstlabel