Suðurstrandarferð


Við ökum sem leið liggur austur frá Reykjavík, um Sandskeið og Svínahraun, og höldum suður um Þrengsli, gægjumst ef vel viðrar inn í hellismunna eins lengsta hraunhellis á Íslandi þarna á heiðinni, nefnilega Raufarhólshelli, og höldum síðan suðuraf fjallinu í átt til Þorlákshafnar.
Leið okkar liggur þvínæst yfir hina nýju brú við ósa Ölfusár, þar sem stangaveiðimenn eru oft að renna fyrir eðalfisk í útfallinu, gjarnan í kappi við áræðna seli sem einnig sækja í góðmetið á þessum slóðum.Brátt verða svo hin gömlu og litríku þorp Eyrarbakki og Stokkseyri á vegi okkar þar sem t.d. má rifja upp gamla verslunarhætti, upphaf Vínlandsferða eða sjósókn kvenna á Íslandsmiðum auk þess sem ýmis minnistæð gömul sakamál koma ósjálfrátt upp í hugann um leið og fangelsið á Litla Hrauni hverfur úr augsýn.
Brátt blasir víðátta Suðurlandsundirlendisins við, og fyrr en varir er komið að ósum annars stórfljóts, nefnilega Þjórsár, en upp með henni liggur leið okkar,með stuttu stansi við Urriðafoss, áður en haldið er upp á hringveginn á nýjan leik.
Á Hellu eða Hvolsvelli er tilvalið að fá sér hressingu áður en lengra er haldið, en næst verður á vegi okkar Fljótshlíðin,með sínum sögustöðum og síðan Markarfljótsaurar og brátt blasir Seljalandsfoss við þar sem hann steypist í stórum sveig fram af hamrabrúninni.
Á leið okkar undir Eyjafjöllunum, þar sem víðáttumiklir kornakrar blasa víða við, þá er vert að huga að breyttum veðurfars-og gróðurskilyrðum á Íslandi allt frá landnámsöld, en skyndilega kemur annar hamrabúi í ljós, nefnilega Skógafoss, og ekki spillir það fyrir ef útsýnið upp Skógaheiði, allt til Goðasteins og jökulsins er gott.
Eftir hádegisverð í Vík í Mýrdal býðst sá möguleiki,allt frá því snemma vors og fram á haust, að taka sér far með hjólabáti og halda í ævintýralega sjóferð út fyrir Reynisdranga,og halda síðan ferðinni áfram annaðhvort frá Görðum í Reynishverfi eða sigla jafnvel allt til Dyrhólaeyjar og halda ferðinni áfram þaðan, en þá þarf að gera ráð fyrir dálitlum aukakostnaði.Á báðum þessum stöðum er fuglalífið um vor og sumar annálað, einkum hið öfluga lundavarp í Reynisfjalli og kríuvarpið í Dyrhólaey,auk þess sem selur sækir töluvert upp í Dyrhólaós.
Frá þessum syðsta odda landsins höldum við upp að Sólheimajökli,en hann hefur eins og kunnugt er hefur gengið kröftuglega fram á undanförnum misserum, og loks rennum við að byggðasafninu á Skógum þar sem gott er að fræðast um búskaparhætti,mannlíf og sjósókn undir Eyjafjöllum á gamalli tíð.
Ferðinni lýkur svo með því að haldið er aftur til Reykjavíkur viðkomulítið um Selfoss, Hveragerði og Hellisheiði.
Lengd: 10 klst,
Brottför
: Sunnudaga kl.8.30, eða samkvæmt pöntun.
Verð pr.mann (fyrir 3 farþega eða fleiri):

(Vinsamlegast veljið gjaldmiðil)
Innifalin þjónusta: akstur og leiðsögn.

bakalabelheimlabelefstlabel