Hringferð um Snæfellsnes


Við leggjum af stað snemma úr Reykjavík í þessa ferð (8:30), og ökum sem leið liggur fyrir Hvalfjörð og um Leirársveit og fyrir Hafnarfjall uns komið er í Borgarnes um kl 10. Eftir stuttan stans er síðan haldið áfram vestur Mýrarnar og dáðst að Eldborginni og síðan um hraunbreiður sunnanundir Snæfellsnesfjallgarðinum, að hinu fallega stuðlabergi á Gerðubergi og að Vegamótum þar sem áhugaverðir minjagripir og fallegir steinar úr nálægum fjörum og giljum eru á boðstólnum.
Fuglalífið á tjörnum og lækjum í nágrenni við Ölduhrygg, eins og til dæmis á Hofgarðatjörn, er margrómað,og síðan má bregða sér heim að bæjunum Ölkeldu eða Lýsuhóli og gæða sér á þeirra öndvegisvatni. Bjarnafoss, Búðahraun og kirkjan og hin margrómaða skeljasandsfjara sem finna má við Búðir, eins og víðar á sunnanverðu Snæfellsnesi eru ótæmandi fyrirmyndir góðra ljósmyndara.
Annar slíkur staður er Arnarstapi, þar sem Stapafell með Snæfellsjökul í baksýn draga ósjálfrátt að sér athygli ferðamannsins, en þar leggjum við í litla gönguferð meðfram sjávarsíðunni og dáumst að fuglalífinu og hinni afar furðulega vogskornu strönd.
Malarrif,hellarnir við Purkhóla og Djúpalónssandur verða næst á vegi okkar, en á þeim síðastnefnda göngum við til sjávar og hugum að aflraunasteinum og flakinu af breska togaranum Epine sem þarna fórst árið 1948.
Á Gufuskálum getur að líta hæsta mannvirki Íslands,áður lóranstöð Atlantshafsbandalagsins en nú langbylgjumastur Ríkisútvarpsins, og við Hellissand er tilvalið að skyggnast aftur í aldir með því að ganga upp að hinum fornu fiskbyrgjum í hraunjaðrinum og skoða síðan minjasafnið um útgerðarhætti þeirra Snæfellinga á eftir.
Í Ólafsvík er tilvalið huga að veitingum og þjónustu, enda eini staðurinn á Útnesinu þar sem slíka þjónustu er að fá allan ársins hring.
Frá Ólafsvík höldum við aftur í austurátt, um Fróðársveit og brátt birtist okkur hinn mikilúðlegi Búlandshöfði en þar finnast, eins og margir vita merkilegir plöntusteingervingar í jarðlögum sem liggja í u.þ.b. 150 m. hæð yfir sjávarmáli. Vegurinn um höfðann liggur hátt og þegar hæsta punkti er náð þá opnast stórfenglegt útsýni yfir norðurstrandlengju Snæfellsness í austurátt.
Brátt er komið í Grundarfjörð þar sem bæði getur að líta einkar fagurt útsýni til fjalla og í átt til hafs þar sem hið formfagra Kirkjufell (463m) ber við himinn.
Við höldum síðan heim á leið um Kerlingarskarð og hin nýju jarðgöng undir Hvalfjörð til Reykjavíkur.

Lengd: 10-11 klst.
Brottför: Laugardaga kl.8:30, eða samkvæmt pöntun.
Verð pr.mann (fyrir 4 farþega eða fleiri):

(Vinsamlegast veljið gjaldmiðil)
Innifalin þjónusta: Akstur og leiðsögn.

bakalabelheimlabelefstlabel