Akranes og Hvalfjörður


Við leggjum af stað í þessa ferð frá Reykjavík annað hvort árla morguns eða kl 13:00, og höldum fyrst sem leið liggur í gegnum Mosfellsbæ, fyrir Kollafjörð í átt að Esju og höldum síðan sem leið liggur í gegnum hin nývígðu jarðgöng undir Hvalfjörð og komum upp á Skaga eftir rúmlega hálfrar klukkustundar akstur.
Þegar þangað er komið er tilvalið að svipast örlítið um fótgangandi við höfnina og í miðbænum, en síðan höldum við í skoðunarferð um bæinn og endum hana í Byggðasafninu í Görðum,þar sem helstu dýrgripirnir kútterinn Sigurfari og fjörgömul rostungs- og nýfundin hvalbein frá lokum ísaldarinnar.
Leið okkar liggur síðan norður fyrir Akrafjall, þaðan sem fallegt útsýni má fá yfir Leirárvog, til Borgarfjarðar, Hafnarfjalls og til Heiðarhorns í Skarðsheiði, og þvínæst um Leirársveit inn Svínadalinn þar sem silungsvötnin liggja hvert á fætur öðru í góðu skjóli fyrir norðanáttinni.
Þegar komið er til baka yfir Ferstikluháls,þá er tilvalið að skoða minningarkirkju sálmaskáldsins góða í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.
Á Bjarteyjarsandi má líta eftir fuglalífi og e.t.v. huga að kræklingi, og á Miðsandi getur að líta ýmis mannvirki Atlantshafsbandalagsins upp eftir fjallhlíðinni.
Þyrilsnes og söguslóðir Harðar sögu og Hólmverja gefa tilefni til þess að rifja upp Íslendingasögurnar og síðan skoðum við Hvalfjarðarbotn þar sem gott færi gefst til gönguferðar og að snæða nesti ef það er með í ferðinni.
Við Laxá í Kjós má oftast, að sumri til, sjá laxveiðimenn athafna sig en að vetri til er hún einkar mikilúðleg í klakaböndum. Að því loknu ekið rakleiðis til Reykjavíkur.

Lengd: 4 klst.,
Brottför: Daglega samkvæmt pöntun.
Farþegar sóttir á hótel /gistiheimili stuttu fyrir brottför.
Verð pr.mann (fyrir 4 farþ.eða fleiri):
Verð pr.mann:
(Vinsamlegast veljið gjaldmiðil)

bakalabelheimlabelefstlabel